U3A Reykjavik
U3A Reykjavík, The University or the Third Age Reykjavík, eru samtök fólks sem er hætt á vinnumarkaði eða er farið að huga að starfslokum. Samtökin voru stofnuð 16. mars 2012 og eru fyrstu U3A samtökin á Íslandi. Samtökin eru frjáls félagasamtök og byggja starfsemi sína á sjálfboðastarfi.
Tilgangur samtakanna er að stuðla að því að fólk, sem er hætt á vinnumarkaði eða er farið að huga að starfslokum, hafi fjölbreytilegt framboð af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem meðlimir samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að:
- Stofna hópa um viðfangsefni sem meðlimir samtakanna velja sjálfir.
- Skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir.
- Efla kynni við aðra innan og utan U3A hreyfingarinnar hvar sem er í heiminum.
Meginmarkmið samtakanna er að þeir sem komnir eru á þriðja æviskeiðið eigi þess kost að afla sér og miðla þekkingu eins lengi og þeir vilja og geta.
Starfsemi þau þrjú ár sem félagið hefur starfað hefur að mestu verið í formi fyrirlestra, námskeiða og kynnisferða. Félagar í U3A Reykjavík eru nú 165 og að auki eru 250 manns á netfangalista samtakanna og fá tilkynningar um það sem er á döfinni.
Heimilsfang:
Hæðargarður 31
108 Reykjavík
Ísland
Netfang: u3areykjavik@u3a.is
Veffang: www.u3a.is
BALL verkefnið, Be Active through Lifelong Learning
Hugmyndin að BALL verkefninu og nafn þess kemur frá U3A Reykjavík. Hún kviknaði fyrst um áramótin 2012/2013 og tók svo flugið þegar samtökin tóku höndum saman við íslenska fyrirtækið Evris rúmu ári seinna um að sækja um styrk til Erasmus+ menntaáætlunar Evrópusambandsins og leita samstarfsaðila. Umsóknin var síðan samþykkt og verkefninu hleypt af stokkunum í september 2014. Þeir sem unnu að umsókninni fyrir hönd U3A Reykjavík og vinna að því fyrir hönd samtakanna eru:
Dr. Hans Kristján Guðmundsson sem hefur m.a. unnið sem vísindafulltrúi EFTA og síðar Íslands í Brussel, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís og forseti viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri.
Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir sem starfaði sem stjórnandi á Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar áður en hún lét af störfum. Ingibjörg er með mastersgráður í skipulagsfræðum og í mannauðsstjórnun.
Hans og Ingibjörg sitja í BALL - sérfræðingateymi U3A Reykjavík ásamt:
Ásdísi Skúladóttur sem hefur starfað sem forstöðumaður einnar af félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar, leikari og leikstjóri á Íslandi og erlendis. Ásdís hefur BA gráðu í stjórnmálafræðum og MPA gráðu (Master of Public Administration). Ásdís hefur verið sæmd ridddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu eldra fólks.
Jón Björnsson, sálfræðingur og rithöfundur. Jón hefur m.a. starfað sem félagsmálastjóri á Akureyri og framkvæmdastjóri menningar-, uppeldis- og félagsmála í hjá Reykjavíkurborg. Hann er vel þekktur fyrir ritstörf sín og þætti í útvarpi.
Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir sem er dósent og forseti Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands. Sigurveig hefur unnið lengi að rannsóknun í öldrunarfræðum og er núna samhæfingaraðili samstarfsverkefnisins Nordic Joint Master‘s Program in Gerontology.