You are here:

Stutt samantekt

Bakgrunnur og samhengi

Sífellt stærri hluti fólks í iðnvæddum ríkjum er lengur á eftirlaunaaldri en áður. Auknar lífslíkur munu leiða til stöðugrar aukningar í fjölda fólks á eftirlaunaaldri, þ.e.a.s. á „þriðja æviskeiði“ sínu. Í Evrópu má búast við að allt að fjórðungur íbúa verði í þessari stöðu. Af þeirri þróun leiðir að afar mikilvægt verður fyrir Evrópu framtíðarinnar að tryggja þessum stóra hópi fólks bestu mögulegu lífsgæði og sjá til þess að sú mikilvæga þekking og reynsla sem þau búa yfir verði aðgengileg og nýtist yngri kynslóðum og samfélaginu í heild. Þetta eru meginforsendur BALL-verkefnisin., Verkefnið miðar að því að auðvelda leiðina að starfslokum með því að skipuleggja þær fyrirsjáanlegu breytingar sem fylgja starfslokum með góðum fyrirvara. Það er forsenda þess að geta átt ánægjulegt og ríkt líf á þriðja æviskeiðinu.

BALL

Verkefnið er viðbragð við brýnni þörf á að þróa leiðbeiningar og aðferðir svo unnt sé að undirbúa starfslok og þriðja æviskeiðið með sem bestum hætti. Lögð er áhersla á nám, umhverfi og andblæ menningar, og miðlun þekkingar. Þessi nýskapandi nálgun hefur lítt eða ekkert verið reynd. Niðurstöðunum er beint til allra þeirra sem hafa áhuga á að bjóða  almenningi, félögum samtaka og/eða starfsmönnum fræðslu um hvernig nálgast megi starfslok. Við ætlum að stuðla að vitundarvakningu um hinn gríðarmikla og sívaxandi auð sem felst í þekkingu og reynslu fólks á þriðja æviskeiðinu og mikilvægi hans fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Markmið

Helstu markmið verkefnisins eru að þróa framsæknar og nýstárlegar leiðbeiningar og ráðleggingar sem munu nýtast símenntunarmiðstöðvum, háskólum, fyrirtækjum, stéttarfélögum, félagasamtökum, sveitarfélögum og samtökum sveitarfélaga sem þurfa og vilja undirbúa og hvetja einstaklinga á þeirra vegum til þess að undirbúa þriðja æviskeiðið. Við munum nýta verkefnið og niðurstöður þess til að vekja fólk til meðvitundar um þessi mikilvægu málefni og miðla niðurstöðunum um gervallt evrópska menntakerfið og hið alþjóðlega samstarfsnet háskóla þriðja æviskeiðsins, U3A.

Þátttakendur

Verkefnið er samstarfsverkefni fjögurra aðila.

  • Evris er aðalumsækjandi og ber ábyrgð á verkefnisstjórnun og heildarskipulagi. Evris hefur sérfræðiþekkingu á evrópskri og alþjóðlegri samvinnu og hjálpar viðskiptavinum sínum að blómstra á sínu sviði.
  • U3A Reykjavík eru samtök sem bjóða félögum sínum á þriðja æviskeiðinu virkan samstarfsvettvang í andblæ fræðslu og menningar.
  • Lublin University of the Third Age, starfar í umboði fimm háskóla í Lublin og ber faglega og akademíska ábyrgð á samtökum hins frjálsa pólska háskóla (Society of the Polish Free University).
  • Permanent University Alicante á Spáni er áætlun á sviði vísinda, menningar- og félagsmála, sem þróuð hefur verið á vegum háskólans í Alicante (University of Alicante) til að efla vísindi, menningu og samskipti kynslóðanna með það að markmiði að auka lífsgæði eldri borgara.

Verkþættir

Áhersla er lögð á að varpa ljósi á stöðu þessara mála í löndum samstarfsaðilanna eins og hún er í dag með rannsókn og kortlagningu. Þetta verður meðal annars gert með sérstakri könnun í hverju landi. Könnunin á að greina skoðanir og væntingar til starfsloka hjá marktæku úrtaki einstaklinga í hverju samstarfslandanna. Sérfræðingar vinna úr niðurstöðum þessara rannsókna og kannana, meðal annars með samanburðarathugunum, sem endanlegar niðurstöður og leiðbeiningar verða byggðar á. Tilraunanámskeið verður síðan haldið í hverju landi til að gagnreyna leiðbeiningarnar og að því loknu verða þær birtar og gefnar út.

Aðferðafræði

Verkefnið verður unnið með rannsóknum, kortlagningu og könnun á núverandi stöðu í löndum samstarfsaðilanna í samræmi við viðurkennda aðferðafræði í félagsvísindum. Niðurstöðurnar verða prófaðar á tilraunanámskeiðum sem gætu orðið fyrirmyndir að því hvernig leiðbeiningar og ráðleggingar kæmu best að notum.

Væntingar til niðurstaðna og áhrifa

Afurð verkefnisins verða leiðbeiningar og ráðleggingar sem beint verður til ákveðinna hagsmunaaðila. Þar verða tíundaðar vænlegustu leiðirnar (e. best practices) við að búa einstaklinga undir starfslok með góðum fyrirvara: Ánægja og virkni á þriðja æviskeiðinu. Niðurstöður verkefnisins munu hafa áhrif til þess að virkja, leiðbeina og hvetja samtök, stofnanir og fyrirtæki til að skipuleggja hvetjandi og fræðandi viðburði. Þannig geta þau aðstoðað meðlimi og starfsmenn sína við að átta sig á mikilvægi þess að undirbúa starfslok með góðum fyrirvara.

Möguleg langtímaáhrif

Gert er ráð fyrir því að afrakstri verkefnisins verði miðlað víða og að það efni sem til verður muni nýtast til framtíðar í nýjum verkefnum. Samstarfaðilar verkefnisins og þeir hagsmunaaðilar sem virkjaðir verða munu vissulega nýta niðurstöðurnar eftir að verkefninu lýkur. Þrír samstarfsaðilinna eru tengdir hinu alþjóðlega neti háskóla þriðja æviskeiðsins (U3A) sem verður vettvangur miðlunar á niðurstöðunum, sem síðan mun hafa áhrif á framtíðarstarfsemi þessara systursamtaka.

 

 

Facebook Link      Twitter Link     YouTube Link     Google+ Link     RSS LINK