Hugsað stórt í BALL

Nú líður að lokum kortlagninartímabils (e. Mapping Exercise) í BALL verkefninu en hvert land hefur unnið hörðum höndum að því að kortleggja það sem gert hefur verið í málefnum þriðja æviskeiðsins í hverju landi fyrir sig (þ.e. á Íslandi, Spáni og í Póllandi) með aðstoð og innleggi frá skilgreindum hagsmunaaðilum. Aðstoðin hefur falist í reglulegum bakhjarlafundum en ekki síst í þátttöku í svokölluðum hugarflugsfundum. Hugarflugsfundina sóttu sérfræðingar sem staðið hafa fyrir starfslokanámskeiðum, fulltrúar nokkurra stórra fyrirtækja með öfluga mannauðsstefnu ásamt fulltrúum frá stærstu stéttarfélögunum.
Á síðasta bakhjarlafundi fór Jón Björnsson, sálfræðingur og rithöfundur, yfir samantekt af hugarflugsfundunum. Þrjár lykilspurningar sem lagðar voru fyrir þátttakendur á þeim fundum snéru sérstaklega að breytingum sem eru á sjóndeildarhringnum, bæði á heimsvísu og á Íslandi, sem munu móta líf fólks á þriðja æviskeiðinu, í öðru lagi að því hvernig fólk á að undirbúa sig undir þriðja æviskeiðið og í þriðja lagi hvernig stofnanir samfélagsins, svo sem vinnuveitendur, samtök, stéttarfélög, skólar og hið opinbera, geta stutt fólk í að undirbúa sig undir þriðja æviskeiði.
Næstu skref í BALL verkefninu eru að hanna spurningalista sem sendir verða út á stór þýði fólks á þriðja æviskeiðinu til að kanna væntingar, viðhorf þess til starfsloka og skoða hvernig best megi undirbúa það fyrir það æviskeið.